Innlent

Boðar lamandi verkföll í haust fái félagsmenn ekki greiðsluna

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar.
Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar. Visir/VÖLUNDUR JÓNSSON
Formaður Framsýnar stéttarfélaga í Þingeyjarsýslum segir það með ólíkindum að Samband íslenskra sveitarfélaga hyggist ekki greiða starfsmönnum sínum innan Starfsgreinasambandsins eingreiðslu í ágúst. Framsýn lítur á ákvörðunina sem refsingu og boðar verkföll.

Ályktun Framsýnar, sem birt var á vef stéttarfélagsins í dag, er tilkomin vegna stöðunnar í kjaraviðræðum Starfsgreinasambandsins, sem Framsýn á aðild að, og samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Starfsmenn sveitarfélaganna, sem eru innan Starfsgreinasambandsins, munu ekki fá sambærilega 105 þúsund króna eingreiðslu í ágúst og starfsmenn annarra stéttarfélaga sem eru með lausa samninga.

Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar furðar sig á þessari ákvörðun samninganefndar sveitarfélaganna.

„Ástæðan er sú að Starfsgreinasambandið hefur vísað deilunni eins og lög gera ráð fyrir þegar ekki nást samningar til ríkissáttasemjara og það á að hegna mönnum fyrir það, sem er með ólíkindum.“

Aðalsteinn segir félagsmenn mjög reiða vegna þessa. Þeir séu jafnframt reiðubúnir að fara í hart ef ekki verði komið til móts við þá.

„Það er alveg ljóst að ef samninganefndin hjá sveitarfélögunum bakkar ekki og greiðir ekki öllum starfsmönnum þessa eingreiðslu núna í byrjun ágúst, og ekki síst til okkar fólks sem er á lægstu töxtunum hjá sveitarfélögunum, þá mun ég leggja til, og ég veit að það er vilji innan verkalýðsfélaganna innan SGS, að boða til verkfallsaðgerða í haust og lama þar með leikskólana í landinu og grunnskólana,“ segir Aðalsteinn.

„Það er ekkert annað sem kemur til greina ef menn haga sér með þessum hætti eins og sveitarfélögin eru að gera með þessu útspili sínu.“

Aðalsteinn segist ekki finna fyrir sáttavilja af hálfu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Nú sé fátt annað að gera en að bíða eftir viðbrögðum

„Ég lít á að þau séu kjarklaus ef þau grípa ekki til þess jafnræðis að greiða öllum þessar hækkanir, ekki bara sumum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×