Veður

Allt að tuttugu stiga hiti

Árni Sæberg skrifar
Hitanum fylgir rigning og rok.
Hitanum fylgir rigning og rok. Vísir/Vilhelm

Hiti gæti náð allt að tuttugu stigum á norðaustanverðu landinu síðdegis í dag. Enn ein lægðin gengur yfir landið úr suðri með ofgnótt af hlýju og röku lofti.

Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands segir að hvessa muni jafnt og þétt eftir því sem líður á morgun og einnig hlýna, einna mest á Norður- og Austurlandi. Hitaskil lægðarinnar fari norður yfir landið og væntanlega muni rigna drjúgt úr þeim og búast megi við vatnavöxtum sunnan- og vestantil. Seint í dag dragi úr vætu og stytti alveg upp á Norðaustur- og Austurlandi og gæti hiti náð hátt í tuttugu stig á norðaustanverðu landinu.

Á morgun, þriðjudag, sé útlit fyrir að vindhraði geti nokkuð víða náð stormstyrk, vindáttin verði suðvestlæg ásamt því að rigna muni duglega á vestanverðu landinu. Hæstu hitatölur muni væntanlega vera á Austurlandi. Seint á morgun dragi svo úr vindi, úrkoma fari yfir í skúri og kólna muni dálítið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×