Handbolti

Draumurinn um verðlaun á öðru stórmótinu í röð úr sögunni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tumi Steinn skoraði átta mörk gegn Egyptalandi.
Tumi Steinn skoraði átta mörk gegn Egyptalandi. mynd/ihf
Ísland tapaði fyrir Egyptalandi, 35-31, í 8-liða úrslitum á HM U-19 ára í handbolta karla í dag.

Þessi sami hópur vann til silfurverðlauna á EM U-18 ára í fyrra. En draumur þeirra um að vinna til verðlauna á öðru stórmótinu í röð er úr sögunni.

Íslendingar áttu litla möguleika gegn sterkum Egyptum. Munurinn á líkamsstyrk liðanna var mikill og Íslendingar réðu lítið við öflugar skyttur Egypta.

Markvarsla íslenska liðsins var engin og Egyptaland skoraði að vild. Staðan í hálfleik var 21-14, Egyptum í vil.

Íslendingar byrjuðu seinni hálfleikinn ágætlega en minnkuðu forskot Egypta ekki að neinu ráði.

Á endanum vann Egyptaland öruggan fjögurra marka sigur, 35-31. Egyptar komust einnig í undanúrslit á HM U-21 árs fyrr í sumar.

Haukur Þrastarson og Tumi Steinn Rúnarsson voru langbestu leikmenn Íslands í dag og skoruðu átta mörk hvor. Aðrir náðu sér ekki á strik.

Ísland leikur um sæti á laugardaginn. Vinni íslenska liðið þann leik leikur það um 5. sætið á sunnudaginn. Tap þýðir leik um 7. sætið á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×