Handbolti

Lauflétt hjá Aroni og félögum þegar þeir tryggðu sér sæti í undanúrslitunum á Super Globe

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson í leik með Barcelona.
Aron Pálmarsson í leik með Barcelona. Getty/Jürgen Schwarz
Aron Pálmarsson og félagar hans í spænska liðinu Barcelona eru komnir áfram í undanúrslit á heimsmeistarakeppni félagsliða, Super Globe, eftir tólf marka sigur á liði Al-Duhail SC frá Katar, 38-26.

Fyrr í dag komust þýska liðið Kiel og Al Wehda frá Sádí Arabíu í undanúrslitin og þá er búist við að Evrópumeistarar RK Vardar frá Norður-Makedóníu komist þangað seinna í kvöld.

Barcelona hefur lagt það í vana sinn að taka Super Globe bikarinn aftur heim til sín til Spánar og liðið er til alls líklegt í ár.

Barcelona mætir einmitt Al Wehda í undanúrslitunum á morgun en Kiel mætir sigurvegaranum úr leik RK Vardar og Al Mudhar frá Sádí Arabíu.  

Aron Pálmarsson skoraði þrjú mörk úr fimm skotum í leiknum en markahæsti leikmaður Barcelona liðsins var Alex Pascual Garcia með sjö mörk en Jure Dolenec skoraði fimm mörk.

Aron nýtti 3 af 5 skotum sínum og gaf einnig 3 stoðsendingar samkvæmt opinberri tölfræði mótsins. Hann spilaði þó bara í fimmtán mínútur í leiknum.

Barcelona heuf unnið heimsmeistarakeppni félagsliða tvö ár í röð og alls fjórum sinnum á síðustu fimm árum sem er met. Þetta er í þrettánda skipti sem heimsmeistarakeppni félagsliða fer fram en nú er hún spiluð í Dammam í Sádí Arabíu.

Sigur Barcelona í dag var aldrei í hættu en liðið var sjö mörkum yfir í hálfleik, 17-10.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×