Innlent

Tónleikagestir hvattir til að vera fyrr á ferðinni vegna nýrra umferðarljósa

Birgir Olgeirsson skrifar
Á annatímum eins og fyrir tónleika í Hörpu er mögulegt að bílaröð geti myndast við ljósin austur Sæbraut.
Á annatímum eins og fyrir tónleika í Hörpu er mögulegt að bílaröð geti myndast við ljósin austur Sæbraut. VÍSIR/VILHELM
Umferðarljós fyrir hjólandi umferð hafa verið sett upp á gatnamótum við Hörpu og tengjast þau hjólastíg meðfram Sæbrautinni og þvera Faxagötu. Jafnframt voru gerðar breytingar á stýringu akandi umferðar um gatnamót Sæbrautar/Kalkofnsvegar og Faxagötu.

Til að bæta umferðaröryggi er bílaumferð sem kemur um Sæbraut að Hörpu núna stýrt með umferðarljósunum en var áður beint á sérstaka beygjuafrein sem hleypti umferð framhjá ljósunum. Þegar bílaumferð á Sæbraut fær grænt ljós, blikkar gult viðvörunarljós samtímis og grænt ljós logar fyrir umferð hjólandi. Þannig er athygli ökumanna vakin á að þeir megi eiga von á hjólandi vegfarendum og um leið hvattir til að sýna varkárni.

Þegar hjólandi umferð fær rautt ljós og grænt ljós logar fyrir bílaumferð á Sæbraut, verður stefnuörin inn Faxagötu einnig græn.

Á annatímum eins og fyrir tónleika í Hörpu er mögulegt að bílaröð geti myndast við ljósin austur Sæbraut. Tónleikagestir, sem í gegnum árin hafa fengið forgang framhjá ljósunum gætu fundið fyrir þessu. Þeir eru því eindregið hvattir til að vera tímanlega á ferðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×