Innlent

Tvær konur á sextugsaldri í gæsluvarðhaldi vegna kókaínsmygls

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Tvær hollenskar konur á sextugsaldri eru í gæsluvarðahaldi fyrir að hafa reynt að smygla inn rúmu kílói af kókaíni til landsins.

Konurnar voru handteknar á Keflavíkurflugvelli á fimmtudaginn í síðustu viku. Grunur hafði vaknað hjá tollgæslunni um aðþær væru með fíkniefni innvortis og var lögregla kölluð til.

„Það eru tveir einstaklingar í haldi vegna innflutnings á kókaíni, rúmu kílói af kókaíni, sem þeir voru með innvortis,“ segir Jón Halldór Sigurðsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á Suðurnesjum.

Samkvæmt heimildum fréttastofu eru konurnar par á sextugsaldri og eru þær báðar frá Hollandi. 

Jón Halldór segir að talið sé að efnin hafi verið ætluð til dreifingar og sölu á íslenskum markaði.

„Þessir einstaklingar eru í gæsluvarðahaldi til föstudagsins 13 september næstkomandi. Jón Halldór segir að rannsókn málsins miði vel.

Það sem af er ári hefur lögreglan á Suðurnesjum náð rúmlega þrjátíu og tveimur kílóum af sterkum fíkniefnum og stefnir í metár að sögn Jóns Halldórs.

„Við erum komin með rúm 32,3 kíló af sterkum fíkniefnum, þar að segja amfetamíni, metamfetamíni og kókaíni. Þar af eru tuttugu og eitt kíló af kókaíni,“ segir Jón Halldór Sigurðsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á Suðurnesjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×