Innlent

Ekkert ferðaveður á Suður- og Suðausturlandi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Vindaspá Veðurstofunnar fyrir klukkan 18 í dag.
Vindaspá Veðurstofunnar fyrir klukkan 18 í dag.

Appelsínugul veðurviðvörun tók gildi á Suðurlandi núna klukkan 15 og gildir hún til klukkan 23 í kvöld. Áður hafði verið gefin út gul viðvörun fyrir þennan landshluta en spáin hefur verið uppfærð og viðvörunin með.

Á vef Veðurstofunnar segir að spáð sé norðaustan 23 til 28 metrum á sekúndu undir Eyjafjöllum. Þá geti vindhviður farið staðbundið yfir 40 metra á sekúndu. Slydda eða snjókoma með lélegu skyggni og ekkert ferðaveður.

Á vef Vegagerðarinnar segir að búið að sé að loka veginum undir Eyjafjöllum og að Vík vegna veðurs auk þess sem veginum frá Gígjukvísl að Jökulsárlóni hefur verið lokað. Þá verður veginum um Mývatns- og Möðrudalsöræfi lokað kl. 18:00, en appelsínugul viðvörun tekur gildi á Suðausturlandi klukkan 17 og er í gildi til 22.

Þar verður norðaustan 18 til 28 metrar á sekúndu með talsverðri snjókomu eða slyddu. Hvassast verður í Mýrdal og Öræfum þar sem vindhviður geta staðbundið farið yfir 40 metra á sekúndu. Ekkert ferðaveður er heldur í þessum landshlutum að því er segir á vef Veðurstofunnar.

Annars staðar á landinu, að frátöldu höfuðborgarsvæðinu og Faxaflóa, hafa gular viðvaranir verið gefnar út. Mismunandi er hvenær þær taka gildi og hversu lengi þær gildi. Nánar má kynna sér viðvaranirnar á vef Veðurstofunnar.



Fréttin var uppfærð kl. 17:16.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×