Handbolti

Danir í úrslit og geta varið Ólympíugullið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mikkel Hansen átti frábæran leik gegn Spáni og skoraði tólf mörk.
Mikkel Hansen átti frábæran leik gegn Spáni og skoraði tólf mörk. epa/TATYANA ZENKOVICH

Danir eru komnir í úrslit í handboltakeppni karla á Ólympíuleikunum eftir sigur á Spánverjum, 23-27. Danska liðið á því möguleika á að verja Ólympíutitilinn sem það vann undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar í Ríó 2016.

Í úrslitaleiknum á laugardaginn mætir Danmörk Frakklandi. Þessi lið mættust einnig í úrslitaleiknum í Ríó fyrir fimm árum.

Mikkel Hansen og Nicklas Landin drógu danska vagninn í leiknum í dag. Hansen skoraði tólf mörk og var markahæstur á vellinum og Landin varði frábærlega.

Danir náðu frumkvæðinu eftir þrjú mörk í röð um miðbik fyrri hálfleik og voru eftir það alltaf í bílstjórasætinu. Staðan í hálfleik var 10-14, Danmörku í vil eftir að Hansen skoraði með skoti í tómt markið í þann mund sem fyrri hálfleikurinn rann sitt skeið.

Spánverjar tóku áhlaup í seinni hálfleik og minnkuðu muninn tvisvar sinnum í eitt mark. En Danir sýndu styrk sinn undir lokin og unnu fjögurra marka sigur, 23-27. Mads Mensah var drjúgur á lokakaflanum og skoraði þá tvö af fjórum mörkum sínum. Mathias Gidsel var næstmarkahæstur í danska liðinu með fimm mörk.

Adrian Figueras og Alex Dujshebaev skoruðu fimm mörk hvor fyrir Spán og Gonzalo Perez De Vargas átti góðan leik í markinu. Spánverjar mæta Egyptum í leiknum um 3. sætið á laugardaginn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×