Handbolti

Frábær lokakafli stelpnanna og framundan úrslitaleikur um sæti á EM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslensku stelpurnar eru einum sigri frá því að komast á EM.
Íslensku stelpurnar eru einum sigri frá því að komast á EM. hsí

Íslenska kvennalandsliðið í handbolta skipað leikmönnum átján ára og yngri vann þriggja marka sigur á Slóvakíu, 29-26, þökk sé frábærum endaspretti. Ísland skoraði átta af síðustu tíu mörkum leiksins.

Ísland hefur þar með unnið báða leiki sína í annarri umferð undankeppni EM U-18 ára. Leikið er í Belgrad í Serbíu. Í gær vann Ísland þriggja marka sigur á Slóveníu, 24-21.

Íslendingar voru marki undir, 14-15, í hálfleik í leiknum gegn Slóvökum í dag. Íslenska liðið byrjaði betur og komst meðal annars fjórum mörkum yfir, 7-11, en missti svo flugið.

Slóvakar voru sterkari aðilinn framan af seinni hálfleik og voru þremur mörkum yfir, 21-24, þegar skammt var til leiksloka. Íslensku stelpurnar áttu í vandræðum í sókninni og Silvia Bronisova, markvörður Slóvakíu, reyndist þeim erfiður ljár í þúfu.

Íslendingar lögðu samt ekki árar í bát og efldust þrátt fyrir mótlætið. Ísland jafnaði í 24-24 og eftir nokkrar misheppnaðar sóknir hjá báðum liðum kom Katrín Anna Ásmundsdóttir Íslendingum yfir, 25-24. Inga Dís Jóhannsdóttir skoraði svo afar mikilvægt mark og kom Íslandi í 26-24.

Þegar uppi var staðið munaði þremur mörkum á liðunum, 29-26. Íslendingar unnu lokakafla leiksins, 8-2.

Elín Klara Þorkelsdóttir var markahæst í íslenska liðinu með níu mörk. Thelma Melsteð Björgvinsdóttir skoraði sex mörk og Lilja Ágústsdóttir fjögur. Ingunn María Brynjarsdóttir varði tíu skot í íslenska markinu.

Í síðasta leik riðilsins á fimmtudaginn mætir Ísland heimaliði Serbíu. Það er hreinn úrslitaleikur um sæti á EM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×