Handbolti

Ómar dró vagninn í dramatískum sigri Magdeburg

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon var frábær í kvöld.
Ómar Ingi Magnússon var frábær í kvöld. Bruno de Carvalho/SOPA Images/LightRocket via Getty Images

Selfyssingurinn Ómar Ingi Magnússon var allt í öllu er Magdeburg tryggði sér sæti í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar í handbolta í kvöld. Liðið vann dramatískan eins marks sigur á Sporting, 36-35, en Ómar kom með beinum hætti að 15 mörkum heimamanna.

Fyrri leikur liðanna endaði með jafntefli í Portúgal, 29-29, og því var allt undir í kvöld. Heimamenn í Magdeburg voru skrefinu framar í fyrri hálfleik og leiddu með tveimur mörkum þegar gengið var til búningsherbergja. Staðan 21-19.

Gestirnir frá Portúgal spiluðu fast og gerðu liðsmönnum Magdeburg erfitt fyrir. Til að gefa smá mynd af því hversu fast þeir spiluðu þá þurftu þeir tíu sinnum að setjast á bekkinn með tveggja mínútna brottvísun, og þá fór rauða spjaldið einnig þrisvar á loft.

Síðari hálfleikurinn var gríðarlega jafn og gestirnir náðu yfirhöndinni þegar um stundarfjórðungur var til leiksloka. Þeir náðu tveggja marka forskoti í stöðunni 32-34, en heimamenn snéru taflinu við á lokasekúndunum og unnu eins marks sigur, 36-35.

Ómar Ingi Magnússon átti frábæran leik í liði heimamanna. Hann skoraði tíu mörk og gaf þar að auki fimm stoðsendingar á liðsfélaga sína. Gísli Þorgeir Kristjánsson kom einnig við sögu í liði Magdeburg og skoraði tvö mörk.

Magdeburg var ekki eina Íslendingaliðið sem tryggði sér sæti í átta liða úrslitum í kvöld, en Kadetten og GOG gerðu slíkt hið sama fyrr í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×