Innherji

Nýjasta ríkis­fyrir­tækið skilaði ríf­legum hagnaði í fyrra

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Haraldur Bjarnason, framkvæmdastjóri Auðkennis.
Haraldur Bjarnason, framkvæmdastjóri Auðkennis. Bylgjan

Auðkenni, útgefandi rafrænna skilríkja sem komst nýlega í eigu íslenska ríkisins, skilaði 138 milljóna króna hagnaði á síðasta ári.

Tekjur tæknifyrirtækisins námu 539 milljónum króna sem þýðir að hagnaðarhlutfallið nam 25 prósentum. Til samanburðar var hagnaðarhlutfallið 20 prósent á árinu 2020 en þá námu tekjurnar 466 milljónum króna og hagnaður var 89 milljónir.

Samkeppniseftirlitið heimilaði í lok mars kaup íslenska ríkisins á Auðkenni fyrir 948 milljónir króna en samkomulag um viðskiptin hafði náðst síðasta sumar. Stærstu hluthafar fyrirtækisins, sem samanlagt áttu nærri 98 prósenta hlut, voru viðskiptabankarnir þrír, Síminn og Kvika banki.

Kaupverðið nam bókfærðu hlutafé félagsins sem var um 80 prósent af því fjármagni sem eigendur félagsins hafa lagt til Auðkennis til þess að þróa lausnina.

Samkeppniseftirlitið setti yfirtökunni þó ákveðin skilyrði og sagði mikilvægt að tryggja að aðkoma ríkisins takmarkaði ekki frekari þróun og frumkvæði annarra aðila á sviði rafrænnar auðkenningar þar sem um væri að ræða markað í mótun.

„Meðal annars af þeim sökum er gert að skilyrði að stjórnvöld endurmeti reglulega stöðu sína og hlutverk á markaðnum í ljósi mögulegra breytinga,“ sagði í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur gefið út að eftir sem áður verði meginverkefni Auðkennis að tryggja áframhaldandi þróun og útbreiðslu rafrænna skilríkja meðal almennings. Slíkt komi til með að styðja við þróun tengdrar stafrænnar þjónustu innan hins opinbera geira og einkageirans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×