Handbolti

Klísturslausi boltinn hans Hassans hefur vanist vel eftir brösuga byrjun

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Selfyssingurinn Tinna Sigurrós Traustadóttir reynir skot með klísturslausa boltanum.
Selfyssingurinn Tinna Sigurrós Traustadóttir reynir skot með klísturslausa boltanum. ihf

Klísturslausi boltinn, sem notast er við á HM kvenna átján ára og yngri, hefur vanist ágætlega. Þetta segir annar þjálfara íslenska liðsins sem hefur spilað sérlega vel á mótinu.

HM U-18 ára kvenna í Norður-Makedóníu er fyrsta stórmótið þar sem notast er við klísturslausa boltann. Hann er mikið hjartans mál fyrir Dr. Hassan Moustafa, hinn þaulsetna og umdeilda forseta Alþjóðahandknattleikssambandsins (IHF).

Boltinn umræddi hefur allavega ekki truflað íslenska liðið mikið á HM en það er enn taplaust og þegar búið að tryggja sér sæti í átta liða úrslitum mótsins.

Árna Stefáni Guðjónssyni, sem þjálfar íslenska U-18 ára liðsins ásamt Ágústi Jóhannssyni, leist ekkert á blikuna þegar hann sá fyrstu æfingarnar með klísturslausa boltann.

„Við vorum mjög stressaðir. Fyrstu 2-3 æfingarnar voru eins og sumir leikmenn hefðu ekki snert handbolta áður. En þær voru fljótar að venjast þessu,“ sagði Árni í samtali við Vísi í gær.

„Ráðið er víst að vera aðeins rakur á höndunum sem væri vanalega ekki gott í handbolta. Gripið virðist þá aðeins aukast. Við höfum ekki átt í teljandi vandræðum en hornamennirnir finna að það er erfiðara að snúa boltann og framkvæmda ákveðin skot. Heilt yfir hefur þetta gengið miklu betur en maður þorði að vona en sum lið tuða meira yfir þessu en önnur.“

Þótt HM U-18 ára kvenna sé fyrsta stórmótið þar sem klísturslausi boltinn er notaður hefur verið spilað með hann áður, til dæmis í Suður-Ameríku.

Ísland mætir heimaliði Norður-Makedóníu í seinni leik sínum í milliriðli 1 klukkan 18:30 í kvöld. Forðist íslenska liðið tap vinnur það riðilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×