Innlent

Fimm ára barn sat óbeltað í kjöltu móður sinnar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði bifreið þar sem óbeltað barn sat í kjöltu móður sinnar.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði bifreið þar sem óbeltað barn sat í kjöltu móður sinnar. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði ökumann bifreiðar í gær þar sem of margir farþegar voru í bílnum. Umrædd bifreið tekur aðeins tvo farþega en þrír voru í bifreiðinni. Umframfarþeginn var fimm ára barn, sem sat í fangi móður sinnar.

Skýrsla var rituð um málið á vettvangi en fólkið hugðist síðan hringja á leigubifreið.

Lögregla stöðvaði einnig ökumann hópferðabifreiðar sem reyndist á 105 km/klst þar sem hámarkshraði var 90 km/klst. Við skráningu upplýsinga kom í ljós að eigandi bifreiðarinnar, sem var fyrirtæki, var ekki með rekstrarleyfi fyrir farþegaflutninga.

Starfsmaður fyrirtækisins hugðist senda leigubifreiðar til að sækja farþega hópbifreiðarinnar en þegar þær skiluðu sér ekki var bifreiðinni fylgt á næstu lögreglustöð.

Lögreglu barst einnig tilkynning um umferðaróhapp í póstnúmerinu 116. Þar ók einn ökumaður á annan en stöðvaði ekki við óhappið heldur hélt áfram leiðar sinnar. Tjónþoli elti og var umrædd bifreið stöðvuð af lögreglu eftir stutta eftirför. 

Tjónvaldur var handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum og vistaður í fangageymslu.

Ein tilkynning barst lögreglu um innbrot í bifreið og þá voru afskipti höfð af manni á heimili hans, þar sem grunur leikur á um að ræktun fíkniefna hafi farið fram. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×