Innlent

Ekki gerð refsing vegna líkams­á­rásar á sátta­fundi

Atli Ísleifsson skrifar
Fyrir dómi kom þó fram að maðurinn sem fyrir árásinni varð hafi verið búinn að áreita ólögráða dóttur ákærða ítrekað og kynferðislega.
Fyrir dómi kom þó fram að maðurinn sem fyrir árásinni varð hafi verið búinn að áreita ólögráða dóttur ákærða ítrekað og kynferðislega. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjaness hefur sakfellt karlmann vegna líkamsárásar á sérstökum sáttafundi þar sem hann réðst á annan mann sem átti að hafa áreitt ólögráða dóttur ákærða ítrekað og kynferðislega. Manninum var ekki gerð sérstök refsing í málinu.

Í dómi kemur fram að árásin hafi átt sér stað innandyra, á skrifstofu, í mars 2021 þar sem ákærði hafi gripið í höfuð brotaþolans, ítrekað slegið hann í höfuðið og andlit þar til að aðrir á staðnum hafi náð að ganga á milli.

Maðurinn sem fyrir árásinni varð hlaut bólgu og hrufl við neðan vinstra auga og eymsli á nokkrum stöðum á höfði og hálsi.

Ákærði játaði brotið skýlaust. Fyrir dómi kom þó fram að sá sem fyrir árásinni varð hafi verið búinn að áreita ólögráða dóttur ákærða ítrekað og kynferðislega. Árásin hafi svo verið gerð á sáttafundi þar sem ákærði hafi „misst stjórn á skapi sínu í örskamma stund og framið þann verknað sem lýst er í ákæru“.

Landsréttur hafði áður dæmt árásarmanninn í tveggja ára óskilorðsbundið fangelsi fyrir meiriháttar líkamsárás og heimilisofbeldi. Brotið sem hann var sakfelldur fyrir nú var framið fyrir uppkvaðningu dóms Landsréttar í júlí 2021. Því hefði verið um hegningarauka nú, en með hliðsjón af greiðri játningu og hve langt sé um liðið frá ársinni þótti dómara ekki efni til að gera manninum frekari refsingu.

Manninum var gert að greiða um 275 þúsund krónur í sakarkostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×