Innlent

Erilsöm nótt hjá lögreglu

Samúel Karl Ólason skrifar
Einn var handtekinn eftir að hann hoppaði á þaki og vélarhlíf bíls í miðbænum og var öðrum manni í annarlegu ástandi vegna ölvunar og fíkniefna vísað af hóteli í miðbænum.
Einn var handtekinn eftir að hann hoppaði á þaki og vélarhlíf bíls í miðbænum og var öðrum manni í annarlegu ástandi vegna ölvunar og fíkniefna vísað af hóteli í miðbænum. Vísir/Vilhelm

Lögregluþjónar höfðu í nógu að snúast í nótt en 120 mál voru skráð í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu frá fimm í gærkvöldi til fimm í nótt. Þar af snerust mörg um umferð og bíla, þar sem fólk var stöðvað vegna öryggisbelta, nagladekkja ljósa og aksturs án ökuréttinda.

Fimm voru stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. Einn ökumaður var fluttur á sjúkrahús eftir bílveltu á Heiðmerkurvegi.

Lögregluþjónar voru kallaðir til aðstoða á Lækjartorgi þar sem maður svaf ölvunarsvefni. Hann var ekki sáttur við að verða vakinn og réðst að lögregluþjónum, sem handtóku hann og fluttu í fangaklefa. Þá keyrðu lögregluþjónar minnst tvö ofurölvi menn heim í nótt en annar þeirra hafði dottið og slasað sig.

Einn var handtekinn eftir að hann hoppaði á þaki og vélarhlíf bíls í miðbænum og var öðrum manni í annarlegu ástandi vegna ölvunar og fíkniefna vísað af hóteli í miðbænum.

Lögreglunni barst einnig tilkynning um að krakkar væru að kveikja í rusli í undirgöngum á Völlunum en sá eldur var lítill og hlaust ekkert tjón af honum.

Þá var einni handtekinn í Grafarholti vegna líkamsárásar og eignaspjalla. Sá var í annarlegu ástandi og vistaður í fangaklefa svo skýrslutaka gæti farið fram þegar ástand hans lagast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×