Innlent

Þrír réðust á ungan dreng og reyndu að ná af honum munum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ráðist var á dreng í gær og reynt að ná af honum skóm, síma og fleiru.
Ráðist var á dreng í gær og reynt að ná af honum skóm, síma og fleiru. Vísir/Vilhelm

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um rán í gær en þar höfðu þrír einstaklingar reynt að ná munum af ungum dreng og beitt hann ofbeldi. Vildu þeir meðal annars fá skó hans, skartgripi og fleira.

Þremenningarnir náðu símanum af drengnum og neituðu að skila honum. Samkvæmt yfirliti lögreglu yfir verkefni gærkvöldsins og næturinnar komst drengurinn undan á hlaupum en var með sjáanlega áverka í andliti eftir hnefahögg.

Lögreglu barst einnig tilkynning um ungmenni að reykja kannabis á skólalóð. Ungmennin reyndust yfir 18 ára en viðurkenndu að hafa verið að neyta kannabisefna. Þau voru hins vegar búin með efnin þegar lögreglu bar að.

Ein tilkynning barst þess efnis að verið væri að reyna að fara inn í bifreiðar. Um konu reyndist að ræða en hún var í verulega annarlegu ástandi og neitaði að segja til nafns. Var hún vistuð í fangageymslu.

Nokkrir voru stöðvaðir í umferðinni grunaðir um akstur undir áhrifum. Einn ökumaður var handtekinn en hann reyndist vopnaður eggvopni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×