Handbolti

Ómar og Janus markahæstir í sigri Madgeburg

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Ómar Ingi Magnússon í leik með Madgeburg.
Ómar Ingi Magnússon í leik með Madgeburg.

Í Meistaradeild karla í handbolta vann Madgeburg leik sinn gegn Porto með fjórum mörkum á meðan Kielce mátti sætta sig við jafntefli gegn Pick Szeged. 

Ómar Ingi Magnússon og Janus Daði Smárason áttu báðir tveir stórfínan leik í liði Madgeburg. Ómar varð markahæstur með níu mörk, 90% skotnýtingu og þrjár stoðsendingar en Janus fylgdi honum fast á eftir með sjö mörk, 100% skotnýtingu og eina stoðsendingu. 

Madgeburg leiddu leikinn lengst framan af fyrri hálfleik en gestirnir frá Porto féllu aldrei langt undan, mest munaði tveimur mörkum á liðunum og strax í byrjun seinni hálfleik tókst Porto að jafna metin og taka svo fram úr Madgeburg. 

Heimamenn voru ekki lengi að leiðrétta það og fóru í kjölfarið á fjögurra marka hrinu sem gestunum tókst aldrei að vinna upp, lokatölur leiksins urðu 37-33. 

Madgeburg fer með þessum sigri upp fyrir Porto og Montpellier í 4. sæti B riðils. 

Í A riðlinum gerðu Kielce og Pick Szeged jafntefli sín á milli, 27-27. Leikurinn var gríðarlega spennandi frá fyrstu mínútu, liðin skiptust á að taka forystuna en aldrei munaði meira en tveimur mörkum. Haukur Þrastarson skoraði eitt mark fyrir Kielce sem situr í 6. sæti A riðilsins, tveimur stigum á undan Pick Szeged. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×