Innlent

Lögreglufréttir

Innbrot í Sandgerði Þremur myndavélum, vídeóupptökuvél, sérríflösku og peningaveski var stolið úr húsi við Klapparstíg í Sandgerði að morgni sunnudags. Einhver óboðinn hafði farið inn í ólæst húsið. Málið er óupplýst og í rannsókn lögreglunnar í Keflavík. Sparkað í banka Rúða var brotin í Landsbankanum í Grindavík aðfaranótt sunnudags rétt eftir miðnætti. Maður sást sparka í rúðu að dyrum hraðbankans tíu mínútur yfir eitt og fara síðan upp í bifreið sem var ekið á brott. Kýldur á þorrablóti Dyravörður á þorrablóti í einum minni bæja Ísafjarðarbæjar hefur kært líkamsárás til lögreglu. Maðurinn var kýldur í andlitið. Lögreglan veit hver var að verki og á eftir að yfirheyra manninn. Það verður gert nú í vikunni. Bifreið ekið á ljósastaura Fólksbifreið var ekið á tvo ljósastaura á Drottningarbraut á Akureyri í fyrrinótt. Hvorki ökumaður né farþegi slösuðust. Lögreglan segir ekki vitað um orsök en allt bendi til að bifreiðinni hafi verið ekið ógætilega. Bifreiðin er mikið skemmd. Ölvaður á miklum hraða Maður rétt um tvítugt var tekinn grunaður um ölvun við akstur á Fagradal milli Reyðarfjarðar og Egilsstaða í fyrrinótt. Maðurinn var einn í bílnum á 129 kílómetra hraða þegar hann náðist. Hálka var á vegum. Lögreglan í Borgarnesi tók einnig ungan mann grunaðan um ölvunarakstur í Borgarnesi í fyrrinótt. Dóp í Neskaupstað Karlmaður milli fertugs og fimmtugs var handtekinn með lítilræði af hassi í Neskaupstað í gær. Talið er að efnið hafi verið ætlað til einkaneyslu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×