Þetta kemur fram í fundargerð sveitarstjórnar hreppsins. Þar segir að bókasafninu verður lokað frá og með 1. nóvember næstkomandi.
„Sveitarstjórn hefur óskað eftir að hefja samtal við Akureyrarbæ um þjónustusamning við Amtsbókasafnið fyrir íbúa Svalbarðsstrandarhrepps. Með ákvörðun sinni telur sveitarstjórn að verið sé að bæta bókasafnsþjónustu við íbúa sveitarfélagsins,“ segir í fundargerðinni.
Bæjarráð Akureyrarbæjar tók beiðni sveitarstjóra Svalbarðsstrandarhrepps, Þórunnar Sifjar Harðardóttur, fyrir á fundi í gær og var þar samþykkt að hefja viðræður við sveitarfélagið. Hefur bæjarlögmanni Akureyrar verið falið að vinna málið áfram.
Bókasafn Svalbarðsstrandarhrepps hefur verið til húsa í ráðhúsinu og verið opið á miðvikudögum milli 15 og 17.