Sport

Þórir á leið til Þýskalands

Stjórn handknattleiksdeildar Hauka á verk fyrir höndum í sumar við að safna liði fyrir komandi tímabil enda munu nokkrir lykilmenn ganga til liðs við erlend félög í sumar. Ásgeir Örn Hallgrímsson er búinn að semja við félag Loga Geirssonar, Lemgo, og Vignir Svavarsson við danska félagið Skjern. Hornamaðurinn Þórir Ólafsson staðfesti síðan við Fréttablaðið í gær að hann myndi skrifa undir samning við þýska félagið TuS N-Lubbecke um næstu helgi. "Þeir eru búnir að senda mér tveggja ára samningstilboð sem ég er að skoða þessa dagana. Mér líst mjög vel á þennan samning og ég á ekki von á öðru en að ég skrifi undir samninginn um helgina," sagði Þórir við Fréttablaðið í gær. "Við konan mín erum mjög spennt fyrir þessu. Okkur langar að prufa að búa úti og nú er tækifærið. Ef okkur líst ekkert á þetta er alltaf hægt að koma heim." Þórir hefur leikið einstaklega vel fyrir Haukana í vetur og frammistaða hans skilaði honum sæti í landsliðshópi Viggós Sigurðssonar. Hann segir að gamall draumur sé að rætast. "Ég er búinn að stefna að þessu frá því ég byrjaði í boltanum og það er gaman að draumurinn sé loks að rætast," sagði Þórir, sem býst við því að fara út fljótlega eftir að Íslandsmóti lýkur til þess að ganga formlega frá málunum við félagið og skoða fasteignir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×