Innlent

Þrjátíu handteknir

Höfð voru afskipti af 30 manns á aðfararnótt laugardags í aðgerðum lögreglu gegn handrukkurum. Enginn þeirra er enn í haldi lögreglu. Það var lögreglan í Reykjavík, í samstarfi við ríkislögreglustjóra sem stóð fyrir aðgerðinni, sem búin er að vera í undirbúningi í talsverðan tíma. Að sögn Karls Steinars Valssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns, var tilgangurinn meðal annars sá að komast að því hverjar væru staðreyndirnar í sögusögnum sem hafa gengið um handrukkara og að kortleggja hverjir séu mest í handrukkun. Auk þess að hafa afskipti af 30 einstaklingum, sem allir tengjast handrukkun á einhvern hátt þótt ekki séu þeir allir taldir handrukkarar, fannst eitthvað af fíkniefnum og bareflum sem eru nú í vörlu lögreglu. Karl Steinar segist eiga von á að framhald verði á þeim málum sem þeir höfu afskipti af nú um helgina. Yfirheyrslum sé nú lokið en það sé of snemmt að segja til um hvort einhver af þessum 30 verði kærðir vegna handrukkunar. Einhverjir mega þó eiga von á kæru vegna fíkniefnanna sem fundust í aðgerðinni. Karl Steinar segist hvetja borgara sem hafa sætt hótunum handrukkara til að setja sig í samband við lögreglu og kæra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×