Innlent

Hátt í 200 teknir fyrir hraðakstur

Á annað hundrað manns hafa verið teknir fyrir of hraðan akstur um þessa miklu ferðahelgi. Sektirnar geta numið tugþúsundum. Íslendingar ættu að læra að flýta sér hægt í umferðinni, hvort sem ferðinni er heitið í vinnuna eða út á land. Um sjötíu manns voru teknir fyrir of hraðan akstur í umdæmi lögreglunnar á Akureyri um helgina og ók einn þeirra innanbæjar á 127 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 70 kílómetrar á klukkustund. Á fimmta tug manna var tekinn í nálægð við Blönduós, 18 manns voru teknir á Reykjanesbrautinni og svona mætti áfram telja. Þegar Lögreglan í Reykjavík var innt eftir upplýsingum fengust þau svör að þetta væri ekki nægilega mikilvægt mál til að eyða tíma í að taka saman. Fyrir átta árum var punktakerfið tekið upp. Ef ökumaður fær tólf punkta á þremur árum missir hann ökuréttindi sín í þrjá mánuði. Ef ökumaður ekur 51 kílómetra á klukkustund eða meira yfir hámarkshraða, þar sem hámarkshraði er 90 kílómetrar á klukkustund, má hann gera ráð fyrir 70 þúsund krónum í sekt, fjórum punktum og sviptingu ökuréttinda í allt að þrjá mánuði. Aki hann 30 kílómetra á klukkustund yfir hámarkshraða þar sem hámarkshraði er 90 nemur sektin 20 þúsund krónum og einn punktur bætist í safnið. Hafi hann svo öryggisbeltið ekki spennt og tali í GSM-símann í leiðinni bætast tíu þúsund krónur við sektina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×