Innlent

Bretinn mætti einn fyrir dóm

Paul Geoffrey Gill, 33 ára gamall Breti, mætti einn til þingfestingar máls á hendur honum og tveimur Íslendingum, Ólafi Páli Sigurðssyni og Örnu Ösp Magnúsardóttur, í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Íslendingarnir eru sagðir vera í mótmælatjaldi við Kárahnjúka. Þremenningarnir sprautuðu grænlituðu skyri á ráðstefnugesti í lokuðum sal á hótel Nordica í Reykjavík þriðjudaginn 14. júní. Þau eru kærð fyrir húsbrot og stórfelld eignaspjöll, en bóta upp á tæpar 2,9 milljónir króna er krafist vegna skemmda af skyrinu. Fólkið var að mótmæla meintum náttúruspjöllum sem álver og meðfylgjandi virkjanaframkvæmdir hafa í för með sér, en ráðstefnan snerist um áliðnað. Þar voru meðal annarra saman komnir fulltrúar Alcoa, Bechtel og Landsvirkjunar. Skyrvökvinn fór á fólk, en einnig á veggi, gólfteppi, stóla og aðra innanstokksmuni. Í ákæru er tjónið metið á tæpar 2,3 milljónir króna, en innandyra eyðilagðist IBM Thinkpad T41 fartölva, AG Neovo 17 tommu tölvuskjár, IBM Thinkvision snertiskjár, þrír hljóðnemar og stórt sýningartjald.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×