Innlent

Braut glas framan í öðrum

Aðalmeðferð í máli 23 ára Keflvíkings sem ákærður er fyrir fjölda afbrota, flest tengd þjófnuðum, en einnig fyrir alvarlega líkamsárás, fór fram í Héraðsdómi Reykjaness fyrir helgi. Maðurinn stal farsímum, veskjum, misnotaði greiðslukort sem hann stal, braust inn í bíla, veitingastað og söluturn, auk þess að vera í nokkur skipti gripinn með amfetamín og e-töflur í neysluskömmtum. Alvarlegasta brotið er þó líkamsárás á veitingastaðnum Traffic í Keflavík í ágústlok í fyrra, en þá braut hann glas á andliti manns. Sá hlaut af djúpan skurð á gagnauga auk annarra meiðsla. Mál tveggja Hafnfirðinga, 23 og 27 ára, voru skilin frá og verður réttað í þeim sérstaklega. Annar var með í innbroti á veitingastaðinn Cactus í Grindavík í maí í fyrra, en hinn var tekinn með hálft gramm af amfetamíni þar sem hann skemmti sér með Keflvíkingnum á veitingastað. Ekki náðist í eitt vitni í málinu og verður aðalmeðferð því lokið eftir viku, en dóms mun að vænta fljótlega eftir þann tíma.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×