Viðskipti erlent

Afkoma Sears yfir væntingum

Frá einni af verslunum Sears.
Frá einni af verslunum Sears. Mynd/AP

Eignarhaldsfélagið Sears Holding, sem rekur þriðju stærstu smávörukeðju Bandaríkjanna, hagnaðist um 294 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði 20,3 milljarða íslenskra króna, á öðrum ársfjórðungi. Þetta er 83 prósenta aukning á milli ára og langt umfram væntingar fjármálasérfræðinga.

Þrátt fyrir þetta drógust tekjur fyrirtækisins saman um 400 milljónir dala eða 27,7 milljarða krónur en þær námu 12,8 milljörðum dala, 887 milljörðum króna.

Alywin Lewis, forstjóri fyrirtækisins, lýsti yfir ánægju með afkomuna og sagði fyrirtækið hafa hug á að nýta hagnað fyrirtækisins til auka þjónustu við viðskiptavini og til yfirtöku á öðrum fyrirtækjum.

Eignarhaldsfélagið varð til á síðasta ári þegar verslanakeðjan Kmart keypti Searskeðjuna. Stjórnandi félagsins er Edward Lampert, sem fjárfestar binda miklar vonir við að noti þekkingu sína til að skila fyrirtækinu góðum hagnaði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×