Viðskipti erlent

ESB hækkar hagvaxtarspá

Fáni Evrópusambandsins.
Fáni Evrópusambandsins.

Evrópusambandið (ESB) hækkaði hagvaxtarspá sína fyrir sambandið í dag. Reiknað er með 2,7 prósenta hagvexti innan ESB á árinu og 2,5 prósenta hagvexti á evrusvæðinu en það er 0,4 prósentustiga hækkun frá fyrri spá. Verði þetta raunin hefur hagvöxtur aldrei verið meiri á evrusvæðinu.

Til samanburðar jókst hagvöxtur innan ESB um 1,6 prósent á síðasta ári og er ljóst að um umtalsverða hækkun er að ræða á milli ára. Hagvöxtur á evrusvæðinu jókst hins vegar um 1,4 prósent í fyrra og var spáð 2,1 prósenta hagvexti á þessu ári.

Þá er reiknað með 2,3 prósenta verðbólgu bæði innan ESB og evrusvæðisins á árinu þrátt fyrir nokkrar verðhækkanir á flestum þáttum.

ESB reiknar með mismiklum hagvexti hjá einstökum aðildarríkja sambandsins. Ekki er búist við að hækkun virðisaukaskatts í Þýskalandi, stærsta hagkerfi ESB, hafi mikil áhrif á þýskt efnahagslíf en spáð að hagvöxtur þar aukist að meðaltali um 2,2 prósent næstu tvö árin.

Af öðrum löndum er reiknað með því að hagvöxtur á Ítalíu verði einungis 1,7 prósent á árinu en heil 5 prósent í Póllandi, sem er methagvöxtur innan sambandsins. Hagvöxtur hjá öðrum aðildarríkjum sambandsins fellur innan þessa ramma en reiknað er með allt frá 2 til 2,7 prósenta hagvexti í þeim.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×