Viðskipti erlent

Meirihlutinn kýs NYSE

Mynd/AFP

Hluthafar í samevrópska hlutabréfamarkaðnum Euronext felldu á árlegum hluthafafundi markaðarins í dag tillögu þess efnis að ganga að tilboði þýsku kauphallarinnar, Deutsche Börsen, í markaðinn, sem lagt var fram í dag. Tilboð kauphallarinnar í New York (NYSE) í Bandaríkjunum, sem gert var í Euronext í gær, hljóðar upp á 10,3 milljarða Bandaríkjadali, jafnvirði tæpra 750 milljarða íslenskra króna. Virðist engu skipta þótt tilboð þýsku kauphallarinnar sé 8 prósentum hærra.

Gengið var til kosninga um tilboðin en niðurstaðan er ekki bindandi.

Með tilboði NYSE í Euronext er helst horft til þess að lækka aukakostnað í hlutabréfaviðskiptum.

Tilboð NYSE hljóðar upp á 71 evru fyrir hvern hlut í Euronext og mun kaupverðið greiðast með eigin fé og hlutum í NYSE. Tilboð Deutsche Börsen hljóðaði hins vegar upp á 76,6 evrur á hlut.

Gengi bréfa í Euronext hækkaði um 2,8 evrur eða 4,1 prósent á mörkuðum í París í dag og stendur gengi markaðarins í 70,3 evrum á hlut. Gengið hefur hækkað mikið það sem af er árs, eða um 60 prósent.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×