Viðskipti erlent

Dow Jones í methæðum

Mynd/AP

Bandaríska hlutabréfavísitalan Dow Jones sló met í dag þegar hún fór í 11.909,92 stig og rauf 11.900 stiga múrinn. Ástæðan er aukin bjartsýni fjárfesta í kjölfar aukinnar afkomu fyrirtækja á borð við McDonald's þrátt fyrir að hægt hafi á efnahagslífinu.

Dow Jones hefur nokkrum sinnum komist í methæðir síðastliðna viku en í síðustu viku sló hún í fyrsta sinn sex ára gamalt met.

Fjárfestar þykja nokkuð bjartsýnir þrátt fyrir að allt stefni í að viðskiptahalli vestanhafs slái met á árinu og að atvinnuleysi hafi aukist lítillega á milli mánaða. Atvinnuleysi vestanhafs er þrátt fyrir þetta fremur lágt.

Á móti hefur afkoma margra fyrirtækja verið betri en á síðasta ári auk þess sem verð á hráolíu hefur lækkað talsvert síðan það fór í sögulegt hámark um miðjan júlí síðastliðinn. Verð á hráolíu í Bandaríkjunum stendur nú í 57,74 dölum á tunnu en verðið hefur ekki verið lægra síðan í desember á síðasta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×