Viðskipti erlent

Peugeotbílar innkallaðir í Danmörku

Norðmaðurinn Henning Solberg í rallýakstri á Peugeot 307 í mars á þessu ári.
Norðmaðurinn Henning Solberg í rallýakstri á Peugeot 307 í mars á þessu ári. Mynd/AFP

Frönsku bílaframleiðendurnir hjá Peugeot hafa ákveðið að innkalla 10.500 bíla af gerðinni Peugot 307 í Danmörku vegna galla í bremsukerfi. Bílarnir, sem voru framleiddir á árunum 2003 til 2005, eru mest seldur bílarnir í Danaveldi.

Eigendum bílanna hefur verið greint frá gallanum og geta þeir farið með þá til umboðsaðila í Danmörku, sem mun kanna bremsukerfið. Það er skammstafað ESP og gerir ökumanni kleift að halda góðri stjórn á bílnum við slæmar aðstæður.

Jens R. Andersens, talsmanns Peugeot í Danmörku, segir í samtali við vefútgáfu danska dagblaðsins Berlingske Tidende, að bilunina sé hægt að rekja til rakans í dönsku lofti, sem geti valdið skammhlaupi í bremsukerfinu með þeim afleiðingum að eldur getur komið upp í þeim.

Andersen vissi hins vegar ekki til þess að bílarnir hefðu verið innkallaðir í öðrum löndum. „Vandamálið tengist dönsku veðurfari, raka og salti sem dreift er á danska vegi að veturlagi," segir hann.

Í júní í fyrra innkallaði Peugeot 60.000 bíla á Norðurlöndunum í kjölfar þess að eldur kom upp í 9 bílum. Fyrirtækið sagði ástæðuna fyrir bilun í bílunum vera kulda á Norðurlöndunum og salt sem sett sé á vegi í hálku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×