Viðskipti erlent

Lakshmi Mittal skipaður forstjóri Arcelor Mittal

Aditya og Lakshmi Mittal.
Aditya og Lakshmi Mittal. Mynd/AFP

Indverskættaði stálkóngurinn Lakshmi Mittal, einn ríkasti maður sem búsettur er á Bretlandseyjum, hefur tekið við sem forstjóri hins nýsameinaða stálfyrirtækis Arcelor Mittal. Fyrirtæki Mittals, Mittal Steel, keypti stálfyrirtækið Arcelor fyrir fimm mánuðum og hafa fyrirtækið sameinast.

Kaupverð Arcelor nemur 38,3 milljörðum bandaríkjadala eða jafnvirði 2.600 milljörðum íslenskra króna.

Roland Junck, sem gerður var að forstjóra fyrirtækisins í ágúst, sagði af sér fyrir skömmu.

Hagnaður stálfyrirtækisins, sem er það stærsta í heimi, jukust um 20 prósent á þriðja ársfjórðungi frá fjórðungnum á undan. Hagnaðurinn á síðasta ársfjórðungi nam 2,18 milljörðum dala eða 149 milljörðum króna samanborið við 1,8 milljarða dali eða 123 milljarða króna á öðrum ársfjórðungi. Tekjur drógust hins vegar lítillega saman á milli fjórðunga en þær námu 22,1 milljarði dala, 1.510 milljörðum króna, á þriðja ársfjórðungi samanborið við 22,4 milljarða dali eða 1.530 milljarða krónur á öðrum ársfjórðungi.

Aditya Mittal, fjármálastjóri Arcelor Mittal og sonur Lakshmis Mittal, segir samrunaferli fyrirtækja ganga vel en búist er við að því ljúki í júní á næsta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×