Viðskipti erlent

Auðkýfingur ranglega orðaður við yfirtöku

Gengi hlutabréfa í bandaríska dagblaðinu New York Times hækkuðu um 7,4 prósent á markaði í Bandaríkjunum í gær í kjölfar orðróms um að bandaríski auðkýfingurinn Maurice Greenberg hyggðist leggja fram yfirtökutilboð í dagblaðið.

Gengi bréfa í dagblaðinu hefur ekki hækkað jafn mikið í tæp sex ár.

Skömmu eftir fréttir þessa efnis birtust í bandarískum fjölmiðlum í gær vísaði talsmaður Greenbergs yfirtökutilburðum hans á bug. Hann sagði Greenberg eiga tæplega 100.000 hluti í New York Times af 143 milljónum hluta og hafi ekki hug á að auka við sig.

Bandaríska dagblaðið Daily News segir ekki mögulegt að gera yfirtökutilboð í New York Times því Ochs-Sulzbergerfjölskyldan, sem haldið hefur um stjórnartauma í dagblaðinu um áratugaskeið, hefur ekki hug á að selja hluti sína.

Skömmu síðar lækkaði gengi bréfa í dagblaðinu um 3,7 prósent á markaði vestanhafs.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×