Viðskipti innlent

Kaupmáttur ýtir undir fasteignaverð

Fjögurra vikna velta á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu jókst um 155 prósent miðað við sama tímabil í fyrra og hefur ekki verið meiri á þeim tíma sem gögn ná til. Veltan í júní nam 28,7 milljörðum króna.

Ásgeir Jónsson, forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings, segir nokkrar ástæður liggja að baki miklum umsvifum á fasteignamarkaði; laun hafi hækkað um rúm tíu prósent síðasta árið, auk þess sem kaupmáttur hafi aukist um fimm prósent. Þá sé atvinnuleysi í algeru lágmarki og fólk hafi þar af leiðandi meira sjálfstraust til stórra fjárfestinga en í öðru árferði. Ásgeir bætir við að fólksfjölgun hafi orðið í Reykjavík undanfarið ár, og bendir á að skattframteljendum hafi fjölgað um fimm prósent milli ára.

„Fasteignaverð hefur nú ekki hækkað að ráði á þessu tímabili. Það skýrist væntanlega af því að stýrivaxtahækkanir Seðlabankans eru ekki enn komnar inn í myndina þar sem bankarnir hafa enn ekki hækkað útlánavexti. Því má væntanlega búast við núna, þótt ekki verði neinar gríðarlegar verðhækkanir," segir Ásgeir, sem telur að velta á fasteignamarkaði muni heldur minnka næstu misserin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×