Viðskipti innlent

FME setur tryggingasölumönnum skýrar reglur

Fjármálaeftirlitið (FME) hefur sent frá sér umræðuskjal með drögum að leiðbeinandi tilmælum um starfshætti vátryggingasölumanna, vátryggingamiðlara, vátryggingaumboðsmanna og vátryggingafélaga. Tilmælin eru til að tryggja ýmsar skyldur tryggingasölumanna. Þar á meðal til að koma í veg fyrir að tryggingasölumenn fari með ónákvæmar upplýsingar og setji fram ósanngjarnar fullyrðingar í garð annarra vátryggingaaðila.

Í umræðuskjali FME, sem er birt á vef eftirlitsins, segir að lögð sé áhersla á að ráðgjöf vátryggingasölumanns sé í samræmi við þarfir viðskiptavinarins og mikilvægi upplýsingaskyldu vátryggingasölumanna. Skulu þeir upplýsa um mikilvægustu atriði vátryggingaskilmálanna, takmarkanir og undantekningar og reglur sem geta orðið til hækkunar eða lækkunar iðgjalds. Loks er lögð áhersla á að vátryggingasölumaður skýri vátryggingartaka frá þeim ástæðum sem liggja að baki ráðleggingum hans.

Haft er eftir Rúnar Guðmundssyni, sviðsstjóra vátryggingasviðs FME, að vátryggingarsamningar geti oft á tíðum verið flóknir og torskildir fyrir hinn almenna vátryggingartaka og því mikilvægt að vátryggingasölumenn viðhafi vönduð vinnubrögð í söluferlinu. „Með því að setja leiðbeinandi tilmæli um sjálft söluferlið erum við að setja vátryggingasölumönnum ákveðinn starfsramma sem er jákvætt fyrir vátryggingafélögin og vátryggingarmiðlarana en ekki síst fyrir viðskiptavini þeirra," segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×