Viðskipti innlent

Meðalupphæð kaupsamninga hæst á Árborgarsvæðinu

Reykjavík.
Reykjavík.

291 kaupsamningi var þinglýst á höfuðborgarsvæðinu, á Árborgarsvæðinu og á Akureyri í vikunni. Meðalupphæð samninganna var hæst á Árborgarsvæðinu, 32,4 milljónir króna, næsthæst á höfuðborgarsvæðinu, 30,2 milljónir króna, en lægst á Akureyri þar sem meðalupphæðin var 19,9 milljónir króna á Akureyri, samkvæmt upplýsingum frá Fasteignamati ríkisins.

249 kaupsamningum var þinglýst á höfuðborgarsvæðinu í vikunni. Þar af var 201 samningur þinglýstur um eignir í fjölbýli, 31 samningur um sérbýli og 17 samningar um annars konar eignir. Heildarveltan var 7.510 milljónir króna og meðalupphæð á samning 30,2 milljónir króna.

Á sama tíma var 23 kaupsamningum þinglýst á Akureyri. Þar af voru 6 samningar um eignir í fjölbýli, 11 samningar um sérbýli og 6 samningar um annars konar eignir. Heildarveltan nam 457 milljónum króna og meðalupphæð á samning 19,9 milljónir króna.

Þá var 19 kaupsamningum þinglýst á Árborgarsvæðinu. Þar af voru 6 samningar um eignir í fjölbýli, 6 samningar um sérbýli og 7 samningar um annars konar eignir. Heildarveltan var 616 milljónir króna og meðalupphæð á samning 32,4 milljónir króna.

Fasteignamat ríkisins vekur athygli á því á vef sínum að meðalupphæð kaupsamnings er ekki hægt að túlka sem meðalverð eigna og þar með sem vísbendingu um verðþróun. Þetta er vegna þess að hver kaupsamningur getur verið um fleiri en eina eign auk þess sem eignir eru misstórar og misgamlar, að sögn fasteignamatsins.

Fasteignamat ríkisins






Fleiri fréttir

Sjá meira


×