Viðskipti innlent

Refresco kaupir franskt fyrirtæki

Hollenska drykkjarvörufyrirtækið Refresco, sem FL Group, Vífillfell og Kaupþing eiga meirihluta í, hefur eignast franska fyrirtækið Nuits Saint-Georges Production SAS en félagið er með aðsetur í Dijon héraði í Frakklandi. Þetta er fjórða fyrirtækið sem Refresco hefur keypt á síðastliðnum þremur mánuðum og rúmlega tvöfaldað veltu sína.

Í tilkynningu frá FL Group kemur fram að Nuits Saint-Georges var áður í eigu Orangina Schweppes og framleiddi eingöngu undir merkjum Pampryl, sem er leiðandi ávaxtasafamerki í Frakklandi. Velta fyrirtækisins nemur 30 milljónum evra, jafnvirði 2,6 milljarða íslenskra króna.

Samkomulag er milli Refresco og Orangina Schweppes um að halda áfram framleiðslu undir merkjum Pampryl, í anda þeirrar stefnu Refresco að fyrirtækið sérhæfi sig í framleiðslu undir vörumerkjum í eigu annarra og áfyllingu og pökkun á nokkrum af stærstu vörumerkjum í drykkjarframleiðslu í Evrópu og víðar. Nuits Saint-Georges verður hluti af Refresco France eftir kaupin.

Refresco er upphaflega hollenskt fyrirtæki en er með framleiðslu í fjölmörgum löndum í Evrópu, í Hollandi, Bretlandi, Þýskalandi, Frakklandi, Spáni, Finnlandi, Póllandi og Belgíu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×