Viðskipti innlent

Minni hagnaður hjá Högum

Úr Hagkaupum.
Úr Hagkaupum.

Hagar, sem meðal annars rekur Bónus, Hagkaup og fleiri verslanir, skilaði hagnaði upp á 417 milljónir króna á síðasta rekstrarári, sem stóð frá 1. mars í fyrra til loka febrúar á þessu ári. Þetta er rúmlega helmingslækkun á milli ára en í fyrra nam hagnaðurinn 997 milljónum króna.

Aðrar eignir Haga eru 10-11, Aðföng, Hýsing, Útilíf, Ferskar kjötvörur, Zara, Íshöfn, Res og Bananar en Baugur á 95 prósent í félaginu.

Í ársuppgjöri Haga kemur fram að rekstrartekjur námu 46.513 milljónum króna samanborið við 44.751 milljón árið á undan. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) var 2.074 milljónir króna en var 738 milljónir króna í fyrra. Þá námu afskriftir námu 918 milljónum króna.

Eigið fé og víkjandi lán námu 7.140 milljónum króna í lok tímabilsins en eiginfjárhlutfall að teknu tilliti til víkjandi láns var 30 prósent.

Á aðalfundi félagsins í lok febrúar var ákveðið að greiða hluthöfum einn milljarð króna í arð á þessu ári.

Í uppgjörinu segir að nokkur bati hafi verið á rekstri Haga á nýliðnu rekstrarári og sé afkoma félagsins ekki komin í þann farveg, sem geti talist ásættanleg til lengri tíma litið. Hafi stjórnendur væntingar um betri rekstur á yfirstandandi rekstrarári.

Þá segir að þrátt fyrir mikla samkeppni á matvörumarkaði hafi dregið úr verðstríði sem ríkti í fyrra. Er bent á að tveir stærstu kostnaðarliðir verslunarinnar, launakostnaður og húsnæðiskostnaður, hafa hækkað mikið umfram verðlagsvítitölu matvöru undanfarin misseri. Þensla á vinnumarkaði og gjörbreytt umhverfi á húsnæðismarkaði hafi því mikil áhrif á rekstur verslana.

Uppgjör Haga





Fleiri fréttir

Sjá meira


×