Viðskipti innlent

Viðsnúningur í afkomu Spalar

Hvalfjarðargöng.
Hvalfjarðargöng. Mynd/Pjetur

Spölur, sem er í eigu Eignarhaldsfélagsins Spalar hf. og rekur Hvalfjarðargöng, skilaði hagnaði upp á 89 milljónir króna á fyrri helmingi síðasta rekstrarárs, sem stóð frá 1. október í fyrra til 31. mars í ár. Til samanburðar nam tap fyrirtækisins árið á undan 83 milljónum króna.

Á öðrum fjórðungi rekstrarársins, sem stendur frá janúar til marsloka, nam hagnaður félagsins 67 milljónum króna. Þetta er talsverður viðsnúningur frá árinu á undan þegar tapið nam 64 milljónum króna.

Í uppgjöri Spalar kemur fram að veggjald hafi numið 399 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum rekstrarársins. Til samanburðar nam það 382 milljónum króna á sama tíma árið á undan. 790 þúsund ökutæki fóru um göngin á fyrri helmingi rekstrarársins sem er 7 prósenta aukning á milli ára.

Rekstrarkostnaður Spalar án afskrifta fyrstu 6 mánuði ársins nam 109 milljónum króna en það er rúmlega 12 prósenta hækkun frá sama tíma í fyrra þegar kostnaðurinn nam 97 milljónum króna.

Gylfi Þórðarson, framkvæmdastjóri Spalar, segir í tilkynningu félagsins heildarafkomuna vel í takt við áætlanir félagsins. Framundan séu umferðarmestu mánuðir ársins sem að öllu jöfnu eru með um 60 prósent af tekjunum.

Uppgjör Spalar






Fleiri fréttir

Sjá meira


×