Sport

Mayweather sagður tilbúinn að mæta Hatton

Floyd Mayweather er ósigraður líkt og Ricky Hatton, en hefur reyndar lagt hanskana á hilluna. Talsmaður Mayweather segir að hann muni lúskra á Hatton.
Floyd Mayweather er ósigraður líkt og Ricky Hatton, en hefur reyndar lagt hanskana á hilluna. Talsmaður Mayweather segir að hann muni lúskra á Hatton. NordicPhotos/GettyImages

Talsmaður hins ósigraða Floyd Mayweather segir að Ricky Hatton sé ofmetnasti boxari í heiminum á síðasta áratug og segir að Mayweather sé tilbúinn að taka hanskana niður af hillunni bara til að kenna Hatton lexíu í hringnum. Hatton skoraði á Mayweather að snúa aftur og mæta sér eftir að hann sigraði Jose Luis Castillo með glæsibrag um helgina.

"Hatton segist aðeins vilja berjast við þá bestu og þá held ég að hann ætti að standa við stóru orðin og mæta Mayweather. Floyd er ekki vanur að taka hlutunum persónulega en hann tók því persónulega þegar Hatton reyndi að upphefja sig í hans nafni um helgina. Hann náði athygli okkar og nú er bara spurning hvort hann stendur við stóru orðin. Það er fátt sem stendur í vegi fyrir því að þeir mætist og ef það gerist verður Hatton tekinn í bakaríið. Hann er ofmetnasti boxari síðustu tíu ára og sýnir Mayweather mikla óvirðingu með tali sínu," sagði talsmaður Mayweather.

Hvorugur þeirra hefur tapað bardaga á ferlinum en Mayweather lofaði að hann væri hættur eftir að hann sigraði Oscar de la Hoya í ofurviðureign þeirra í vor. Ljóst er að margt bendir til þess að orðið geti úr stórbardaga þeirra Hatton og Mayweather, en hans hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×