Viðskipti innlent

Vöruskiptahallinn við útlönd minnkar

Innflutningur á fólksbílum var minni á fyrstu fimm mánuðum ársins en á sama tíma í fyrra.
Innflutningur á fólksbílum var minni á fyrstu fimm mánuðum ársins en á sama tíma í fyrra.

Vöruskipti við útlönd voru óhagstæð um 10,7 milljarða krónur í maí, samkvæmt útreikningum Hagstofu Íslands. Þetta er 1,9 milljörðum krónum minni halli á vöruskiptum en á sama tíma í fyrra. Vöruskiptin á fyrstu fimm mánuðum ársins drógust saman um helming á milli ára.

Vörur voru fluttar út í mánuðinum fyrir 20,5 milljarð krónur en inn fyrir 31,2 milljarða.

Þetta jafngildir því að vöruskipti við útlönd hafi verið óhagstæð um 30,6 milljarða krónur á fyrstu fimm mánuðum ársins. Á sama tíma í fyrra voru þau hins vegar óhagstæð um 59,3 milljarða. Vöruskiptajöfnuðurinn var því 28,7 milljörðum krónum hagstæðari í ár en á sama tíma í fyrra.

Útflutningsverðmæti sjávarafurða var 47 prósent alls vöruútflutnings á tímabilinu en útfluttar iðnaðarvöru námu 40 prósentum. Verðmæti sjávarafurða var fjórum prósentum meira í ár en í fyrra en verðmæti iðnaðar vara jókst um 34 prósent. Aukningu útflutnings má einna helst rekja til aukins álútflutnings og sölu flugvéla til útlanda, að sögn Hagstofunnar.

Verðmæti innflutnings nam 7,6 milljörðum króna á tímabilinu, sem er fimm prósentum minna á föstu gengi en í fyrra. Mesti samdrátturinn var í innflutningi á flugvélum og fólksbílum en á móti kom aukning í innflutningi á eldsneyti og smurolíum og neysluvöru annarri en mat- og drykkjarvöru. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×