Viðskipti erlent

Afkoma Danske Bank undir væntingum

Hagnaður Danske Bank fyrir skatta á fyrstu sex mánuðum ársins nam rúmum 10 milljörðum danskra króna, jafnvirði rúmra 118 milljarða íslenskra króna. Þrátt fyrir að vera 18 prósenta hækkun frá sama tíma í fyrra en þetta lítillega undir væntingum.

Markaðsaðilar höfðu gert ráð fyrir hálfu prósentustigs meiri hagnaði á fyrri helmingi ársins og hagnaður fyrir skatta upp á rúma 10,2 milljarða danskra króna, að sögn fréttastofu Reuters.

Rekstrartekjur á tímabilinu námu tæpum 22,6 milljörðum danskra króna, sem er 27 prósenta vöxtur frá sama tíma í fyrra. Þá nam rekstrarkostnaður 12,5 milljörðum króna, sem er 29 prósenta aukning frá í fyrra.

Skýringanna fyrir auknum kostnaði er helst að finna í samþættingu vegna fyrirtækjakaupa og aukinnar starfsemi, að sögn Reuters. Á meðal nýlegra kaupa bankans er finnska fjármálafyrirtækið Sampo, sem Danske Bank keypti í fyrrahaust.

Peter Straarup, forstjóri Danske Bank, segir stöðu Danske Bank sterka og vöxtinn á fyrri helmingi ársins ánægjulegan, ekki síst í Finnlandi og í Eystrasaltslöndunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×