Viðskipti erlent

Bernanke ekki að flýta sér

Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna. Wall Street Journal segir hann ekki ætla að hlaupa til og lækka stýrivexti.
Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna. Wall Street Journal segir hann ekki ætla að hlaupa til og lækka stýrivexti. Mynd/AFP

Seðlabanki Bandaríkjanna ætlar ekki að hlaupa til og lækka stýrivexti. Bankinn vill að fjármálafyrirtæki líti ekki svo á að bankinn eigi að hjálpa fyrirtækjunum úr þeim vanda sem þau hafi komið sér sjálf í. Þetta segir bandaríska dagblaðið Wall Street Journal í dag. Blaðið bendir á að Alan Greenspan, fyrrum seðlabankastjóri og forveri Ben Bernankes, hafi brugðist við viðlíka hræringum með vaxtalækkun.

Seðlabankinn hefur brugðist við með ýmsum hætti, svosem með því að dæla fjármagni inn í efnahagslífið og lækka daglánavexti fyrr í mánuðinum. Bankinn hefur hins vegar ekkert látið upp um það hvort hann lækki stýrivexti, sem staðið hafa í 5,25 prósentum síðan í júní í fyrra.

Wall Street Journal bendir sömuleiðis á að Bernanke vilji breyta ímynd bankans á þá lund að fjármálafyrirtæki líti ekki á hann sem stuðpúða, sem komi fyrirtækjum til hjálpar með jafn áhrifamiklum hætti og með lækkun stýrivaxta.

Ýjað hefur verið að því að Alan Greenspan, fyrrum seðlabankastjóri, hafi sagt á fundi með þýska bankanum Deutsche Bank fyrir nokkru að hann hefði brugðist við þrengingum á fjármálamarkaði með lækkun stýrivaxta. Greenspan hefur hins vegar neitað því og aldrei sagst hafa tjáð sig um málið með þessum hætti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×