Viðskipti erlent

Olíuverð nálægt sögulegum hæðum

Hermaður horfir á elda loga við olíuleiðslu í Mexíkó.
Hermaður horfir á elda loga við olíuleiðslu í Mexíkó. Mynd/AP

Heimsmarkaðsverð á hráolíu rauk upp í hæstu hæðir á fjármálamörkuðum í dag eftir að uppreisnarhópar frömdu skemmdarverk við olíuvinnslustöðvar og leiðslur í Mexíkó Ekki liggur fyrir hvað hópunum stóð til en þeir eru sagðir vinstrisinnaðir uppreisnarseggir og andsnúnir ríkisstjórn landsins. Verðið hækkaði talsvert í gær en þá var gert ráð fyrir því að Samtök olíuútflutningsríkja, OPEC, myndu halda olíuframleiðslukvótum óbreyttum.

Þrýst hafði verið á samtökin, sem funda um málið í Vínarborg, að auka framleiðsluna til að koma olíuverði niður.

Mexíkó er fimmti stærsti olíuútflytjendi í heimi en ráðamenn í landinu segja árásirnar ekki koma niður á olíuframleiðslu landsins, að sögn breska ríkisútvarpsins.

Í kjölfar árásanna hækkaði verð á hráolíu um 37 sent og stendur verðið í 77,86 dölum á tunnu. Til samanburðar fór olíutunnan í 78,77 dali á tunnu 1. ágúst síðastliðinn og hafði aldrei verið hærra.

Verð á Brent Norðursjávarolíu hækkaði á sama tíma um 28 sent á tunnu og stendur í 75,76 dölum á tunnu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×