Viðskipti erlent

Dalur í lægstu lægðum gagnvart evru

Evrur.
Evrur.

Gengi bandaríkjadal sökk í lægstu lægðir gagnvart evru en aldrei hefur verið jafn mikil gjá á milli gjaldmiðlanna. Ástæðan fyrir lækkuninni er aukin bjartsýni fjárfesta vestanhafs á að seðlabanki Bandaríkjanna lækki stýrivexti um allt að 50 punkta á vaxtaákvörðunarfundi sínum eftir tæpa viku.

Bilið á milli gjaldmiðlanna hefur sveiflast lítillega upp á síðkastið en dregið æ meir í sundur eftir því sem nær hefur dregið að vaxtaákvörðunarfundinum. Þá eiga tölur bandarísku vinnumálastofnunarinnar í síðustu viku hlut að máli en samkvæmt þeim misstu fleiri vinnuna en gert hafði verið ráð fyrir í síðasta mánuði.

Gangi spá fjárfesta að seðlabanki Bandaríkjanna lækki stýrivexti verður þetta fyrsta lækkunin í um fjögur ár og fyrsta breytingin á stýrivöxtum þar í landi síðan um mitt síðasta ár.

Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, gaf hins vegar engar vísbendingar um næstu skref bankans í ávarpi sem hann flutti í Berlín í Þýskalandi í gær. Í staðinn þrýsti hann á stjórnvöld víða um heim að gera allt sem í valdi þeirra stæði til að draga úr viðskiptahalla.

Lægri stýrivextir geta alla jafna haft neikvæð áhrif á gengi gjaldmiðla og hætt á að fjárfestar fái lægri ávöxtun á fjárfestingar sínar sem ráðist af gengisáhættu, að sögn Associated Press.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×