Rykið dustað Einar Már Jónsson skrifar 26. mars 2008 05:00 Í þeirri nútímavæðingu mannlífsins sem hefur verið í fullum gangi nú um nokkurt skeið, hafa ýmis grundvallaratriði orðið útundan, og eitt af þeim er bóklestur. Menn nota að vísu tölvur í bókasöfnum, mörgum finnst netið hagkvæmt til að panta bækur og það ber við að einstaka menn prenti bækur á pappír upp úr netinu, en að öðru leyti hefur bókmenningin stöðugt sinn vanagang. Útgefendur halda sem sé sínu striki, taka við handritum og láta þau á þrykk út ganga eftir viðurkenndum reglum. Um víða veröld eru einnig til þjóðarbókhlöður og landsbókasöfn, svo og borgarbókasöfn alls kyns í mjög svo hefðbundnum stíl, og haga starfseminni eins og gert hefur verið í óratíma, að sumu leyti allt frá því að bókaskemman mikla var sett á stofn í Alexandríu. Sum þeirra sjá um að varðveita bækur og alls kyns skjöl og gögn fyrir fræðimenn seinni tíma, og fyrir þau tíðkast skilaskylda, önnur hafa á boðstólum bækur til lestrar fyrir almenning. En getur það gengið lengur að menn ríghaldi í einhverjar æfagamlar og vafalaust löngu úreltar venjur? Er ekki löngu kominn tími til að menn nútímavæði bóklesturinn í samræmi við þær miklu byltingar sem orðið hafa á allri heimsmenningunni undanfarin ár? Þetta finnst mörgum, og til að gera tillögur um nýskipun á bóklestri hefur verið sett á fót í Frakklandi þriggja manna nefnd. Eins og við var að búast var það viskubrunnurinn Sarkozy sem átti frumkvæðið að þessu, og í nefndinni eiga sæti þrír menn. Einn þeirra er Marc nokkur Levy sem stundar það að skrifa metsölubækur, um leið og verk eftir hann birtist á það jafnan öruggt sæti ofarlega á listum yfir hæstu sölu. Annar er Sulitzer, sem hefur að sérgrein að skrifa spennusögur sviðsettar hér og hvar í fjármálaheiminum. Hinn þriðji er Leclerc sem á keðju ofurmarkaða og brýtur stundum reglur til hagsbóta fyrir viðskiptavini sína. Þessir menn sem eru eins og sjá má sérstaklega hæfir til að leggja drög að bókmenningu framtíðarinnar byrjuðu eins og vænta mátti á stefnuyfirlýsingu. Hún var á þessa leið: „Tími er til kominn að brjóta niður tímaskekkjur haftanna, kulvísi hagsmunaaðila, bönn skriffinnskuveldisins sem dæma alla bókakeðjuna (höfunda, útgefendur, bóksala, almenningsbókasöfn) til að fara snarlega á hausinn. Að dusta burtu rykið eða bíða skipbrot - um það stendur valið." Og tilgangurinn var sá að veita nýjum krafti og samkeppnishæfni inn í „iðngrein sem komið er talsvert drep í og nauðsynlegt er að tengja við hin lífgefandi öfl nútímavæðingarinnar." Enn sem komið er hefur nefndin einungis sett fram fáeinar tillögur til bráðabirgða, þær á eftir að ræða og útfæra betur, ekki síst til að leggja skýrar á ráðin um framkvæmdir. Eigi að síður finnast mér þær þegar allrar athygli verðar, og tel því rétt að rekja nokkrar helstu þeirra, eftir því sem komið hefur fram í blöðum: Fyrst af öllu telja nefndarmenn nauðsynlegt að afnema þá skilaskyldu á bókum sem verið hefur við lýði í Frakklandi frá því að Frans 1. gaf út um það tilskipun árið 1537 (á Íslandi eitthvað skemur) og skuldbindur útgefendur til að afhenda bókasöfnum nokkur eintök af þeim bókum sem þeir gefa út. Þetta fyrirkomulag er að sögn þeirra algerlega úrelt. Einungis á að láta afhenda þær bækur sem svara raunverulegum kröfum bókaneytenda. Og hvernig á að finna þær? Slíkt er einfalt mál: það á að fara eftir þeim listum yfir metsölubækur sem birtar eru í vikublöðum. Það er allt of mikið af alls kyns bókum um hitt og þetta, til að velja úr þeim þarf skýra og ótvíræða viðmiðun. Síðan þarf að nútímavæða þau bókasöfn sem til eru. Í þeim er aragrúi af bókum, handritum, skjölum, kortum og myndum sem enginn maður les og aldrei er beðið um. Þetta gildir vafalaust um tvo þriðju af öllu því úrelta dóti sem er geymt í frönsku þjóðarbókhlöðunni, segja nefndarmenn. En til eru undarlegir menn, bókasafnarar, sem hafa áhuga á þessu og vilja jafnvel borga stórfé fyrir það. Þess vegna er nauðsynlegt að setja þetta allt út á almennan markað, selja það hæstbjóðendum, og myndi þá þrennt vinnast: það væri hægt að losa mikið geymslupláss sem síðan mætti taka undir annað eða þá selja, það væri hægt að fækka mjög mikið starfsfólki, sem er hvort sem er allt of margt og fær allt of hátt kaup, og það væri hægt að hala inn mikið fé til að losna við þennan eilífa taprekstur bókasafna. Loks er brýnt að taka þegar í stað upp samstarf við einkafyrirtæki. Þau myndu vafalaust vera fús til að fjármagna flutning texta inn á rafrænt form gegn því að fá að setja sitt eigið merki á þá og eigna sér þá á sinn hátt í auglýsingaskyni. Svo íslensk dæmi séu sett í stað þeirra frönsku sem nefnd eru í Parísarblöðum, þá er meira en líklegt að einhver ferðaskrifstofa vildi fá að merkja sér þannig „Vetrarferðina", litaverslun „Óreiðu á striga", útfararþjónusta „Dauðans óvissa tíma", póstþjónusta „Skilaboð til Söndru" og álnavöruverslun „Vefarann mikla frá Kasmír". Því framþróunin verður ekki stöðvuð. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Einar Már Jónsson Mest lesið Verstu kennarar í heimi Gígja Bjargardóttir Skoðun Hinir vondu fjármagnseigendur! Guðmundur Ragnarsson Skoðun Óheiðarlegur óskalisti Sjálfstæðisflokksins Finnur Ricart Andrason Skoðun Vertu réttu megin við línuna Benedikta Guðrún Svavarsdóttir Skoðun Um hvað snýst yfirvofandi læknaverkfall - hvað ber eiginlega á milli samningsaðila? Theódór Skúli Sigurðsson Skoðun Gaslýsum almenning Elínrós Erlingsdóttir Skoðun Er húsið tómt? Bjarni Benediktsson Skoðun Hægriflokkarnir boða ójöfnuð fyrir íslenska skóla Dagbjört Hákonardóttir Skoðun „Að ganga á bak orða sinna“ – Hvað þýðir það eiginlega? Ragnheiður Stephensen Skoðun Íslensku menntaverðlaunin – íslenskt skólastarf Jón Torfi Jónasson Skoðun
Í þeirri nútímavæðingu mannlífsins sem hefur verið í fullum gangi nú um nokkurt skeið, hafa ýmis grundvallaratriði orðið útundan, og eitt af þeim er bóklestur. Menn nota að vísu tölvur í bókasöfnum, mörgum finnst netið hagkvæmt til að panta bækur og það ber við að einstaka menn prenti bækur á pappír upp úr netinu, en að öðru leyti hefur bókmenningin stöðugt sinn vanagang. Útgefendur halda sem sé sínu striki, taka við handritum og láta þau á þrykk út ganga eftir viðurkenndum reglum. Um víða veröld eru einnig til þjóðarbókhlöður og landsbókasöfn, svo og borgarbókasöfn alls kyns í mjög svo hefðbundnum stíl, og haga starfseminni eins og gert hefur verið í óratíma, að sumu leyti allt frá því að bókaskemman mikla var sett á stofn í Alexandríu. Sum þeirra sjá um að varðveita bækur og alls kyns skjöl og gögn fyrir fræðimenn seinni tíma, og fyrir þau tíðkast skilaskylda, önnur hafa á boðstólum bækur til lestrar fyrir almenning. En getur það gengið lengur að menn ríghaldi í einhverjar æfagamlar og vafalaust löngu úreltar venjur? Er ekki löngu kominn tími til að menn nútímavæði bóklesturinn í samræmi við þær miklu byltingar sem orðið hafa á allri heimsmenningunni undanfarin ár? Þetta finnst mörgum, og til að gera tillögur um nýskipun á bóklestri hefur verið sett á fót í Frakklandi þriggja manna nefnd. Eins og við var að búast var það viskubrunnurinn Sarkozy sem átti frumkvæðið að þessu, og í nefndinni eiga sæti þrír menn. Einn þeirra er Marc nokkur Levy sem stundar það að skrifa metsölubækur, um leið og verk eftir hann birtist á það jafnan öruggt sæti ofarlega á listum yfir hæstu sölu. Annar er Sulitzer, sem hefur að sérgrein að skrifa spennusögur sviðsettar hér og hvar í fjármálaheiminum. Hinn þriðji er Leclerc sem á keðju ofurmarkaða og brýtur stundum reglur til hagsbóta fyrir viðskiptavini sína. Þessir menn sem eru eins og sjá má sérstaklega hæfir til að leggja drög að bókmenningu framtíðarinnar byrjuðu eins og vænta mátti á stefnuyfirlýsingu. Hún var á þessa leið: „Tími er til kominn að brjóta niður tímaskekkjur haftanna, kulvísi hagsmunaaðila, bönn skriffinnskuveldisins sem dæma alla bókakeðjuna (höfunda, útgefendur, bóksala, almenningsbókasöfn) til að fara snarlega á hausinn. Að dusta burtu rykið eða bíða skipbrot - um það stendur valið." Og tilgangurinn var sá að veita nýjum krafti og samkeppnishæfni inn í „iðngrein sem komið er talsvert drep í og nauðsynlegt er að tengja við hin lífgefandi öfl nútímavæðingarinnar." Enn sem komið er hefur nefndin einungis sett fram fáeinar tillögur til bráðabirgða, þær á eftir að ræða og útfæra betur, ekki síst til að leggja skýrar á ráðin um framkvæmdir. Eigi að síður finnast mér þær þegar allrar athygli verðar, og tel því rétt að rekja nokkrar helstu þeirra, eftir því sem komið hefur fram í blöðum: Fyrst af öllu telja nefndarmenn nauðsynlegt að afnema þá skilaskyldu á bókum sem verið hefur við lýði í Frakklandi frá því að Frans 1. gaf út um það tilskipun árið 1537 (á Íslandi eitthvað skemur) og skuldbindur útgefendur til að afhenda bókasöfnum nokkur eintök af þeim bókum sem þeir gefa út. Þetta fyrirkomulag er að sögn þeirra algerlega úrelt. Einungis á að láta afhenda þær bækur sem svara raunverulegum kröfum bókaneytenda. Og hvernig á að finna þær? Slíkt er einfalt mál: það á að fara eftir þeim listum yfir metsölubækur sem birtar eru í vikublöðum. Það er allt of mikið af alls kyns bókum um hitt og þetta, til að velja úr þeim þarf skýra og ótvíræða viðmiðun. Síðan þarf að nútímavæða þau bókasöfn sem til eru. Í þeim er aragrúi af bókum, handritum, skjölum, kortum og myndum sem enginn maður les og aldrei er beðið um. Þetta gildir vafalaust um tvo þriðju af öllu því úrelta dóti sem er geymt í frönsku þjóðarbókhlöðunni, segja nefndarmenn. En til eru undarlegir menn, bókasafnarar, sem hafa áhuga á þessu og vilja jafnvel borga stórfé fyrir það. Þess vegna er nauðsynlegt að setja þetta allt út á almennan markað, selja það hæstbjóðendum, og myndi þá þrennt vinnast: það væri hægt að losa mikið geymslupláss sem síðan mætti taka undir annað eða þá selja, það væri hægt að fækka mjög mikið starfsfólki, sem er hvort sem er allt of margt og fær allt of hátt kaup, og það væri hægt að hala inn mikið fé til að losna við þennan eilífa taprekstur bókasafna. Loks er brýnt að taka þegar í stað upp samstarf við einkafyrirtæki. Þau myndu vafalaust vera fús til að fjármagna flutning texta inn á rafrænt form gegn því að fá að setja sitt eigið merki á þá og eigna sér þá á sinn hátt í auglýsingaskyni. Svo íslensk dæmi séu sett í stað þeirra frönsku sem nefnd eru í Parísarblöðum, þá er meira en líklegt að einhver ferðaskrifstofa vildi fá að merkja sér þannig „Vetrarferðina", litaverslun „Óreiðu á striga", útfararþjónusta „Dauðans óvissa tíma", póstþjónusta „Skilaboð til Söndru" og álnavöruverslun „Vefarann mikla frá Kasmír". Því framþróunin verður ekki stöðvuð.
Um hvað snýst yfirvofandi læknaverkfall - hvað ber eiginlega á milli samningsaðila? Theódór Skúli Sigurðsson Skoðun
Um hvað snýst yfirvofandi læknaverkfall - hvað ber eiginlega á milli samningsaðila? Theódór Skúli Sigurðsson Skoðun