Handbolti

Gylfi verður norsku handboltaliði innan handar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gylfi Einarsson í leik með Brann.
Gylfi Einarsson í leik með Brann. Nordic Photos / AFP

Norska dagblaðið Bergensavisen greinir frá því að handboltaliðið Fyllingen hafi leitað til íslensku leikmannanna í Brann til að hjálpa við að skoða íslenska leikmannamarkaðinn í handbolta.

Fyllingen leikur í norsku úrvalsdeildinni og segir yfirmaður íþróttamála hjá félaginu, Rune Sövdsnes, að þeir hafi þurft hjálp til að skoða íslenska leikmannamarkaðinn.

„Við erum með góða yfirsýn yfir norska og danska leikmannamarkaðinn en vantar einhvern til að gefa okkur góð ráð um þann íslenska. Nokkrir umboðsmenn hafa sett sig í samband við okkur vegna þessa en við þurfum að komast í bein tengsli við annað hvort félög eða leikmenn á Íslandi," sagði Sövdsnes.

„Við vitum að það er mikið af hæfileikaríkum handboltamönnum á Íslandi og við viljum endilega komast í samband við þá," bætti hann við.

Félagið setti sig fyrst í samband við Ólaf Örn Bjarnason sem í kjölfarið benti þeim á Gylfa Einarsson og Birki Má Sævarsson sem koma báðir frá Reykjavík og þekkja því betur til handboltans.

„Þeir mega endilega hafa samband," sagði Gylfi. „Eiginmaður systur minnar lék lengi handbolta og þekkir þann heim á Íslandi mjög vel. Hann getur veitt þeim ráð og sett þá í samband við rétta fólkið."

Fram kemur einnig í greininni að Fyllingen hafi svo sett sig í samband við Gylfa. „Hann hefur boðist til að hjálpa okkur við að kortleggja markaðinn á Íslandi," sagði Sövdsnes.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×