Handbolti

Nauðsynlegt að ná að púsla þessu saman í dag

Rakel Dögg átti fínan leik í dag
Rakel Dögg átti fínan leik í dag

Rakel Dögg Bragadóttir var markahæst í báðum æfingaleikjum íslenska landsliðsins gegn danska liðinu Kolding um helgina. Hún á von á mjög erfiðu verkefni um næstu helgi þegar liðið mætir Rúmenum í umspili um sæti á EM.

Íslenska landsliðið tapaði fyrir Kolding í gær en sneri við blaðinu í Laugardalshöllinni í dag og vann þriggja marka sigur, 26-23 eftir að hafa verið yfir 12-11 í hálfleik.

Rakel Dögg Bragadóttir var markahæst með 6 mörk og þær Dagný Skúladóttir og Sólveig Lára Kjærnested skoruðu 5 hvor. Þá var Berglind Hansdóttir frábær í markinu og varði 18 skot.

Rakel Dögg var ánægð með leik íslenska liðsins í gær og fagnaði því að liðið næði góðum sigri sem veganesti í umspilsleikinn gegn Rúmenum um næstu helgi.

"Leikurinn í gær var þokkalegur en það vantaði bara að við kláruðum hann. Það vantaði þessa aukalegu baráttu sem var til staðar í dag. Vörnin og markvarslan var líka frábær í dag og það munar mikið um það. Þetta danska lið er mjög sterkt, en við erum líka að fara að mæta einni sterkustu þjóð í heimi um næstu helgi þannig að það var nauðsynlegt fyrir okkur að ná að púsla okkur saman í dag," sagði Rakel Dögg í samtali við Vísi.

"Ég er mjög spennt fyrir þessum leik gegn Rúmenum, en við vitum að mótherjinn er gríðarlega sterkur. Við verðum litla liðið í þessum leik en vitum að við getum gert góða hluti gegn þeim á góðum degi. Baráttan, vörnin og markvarslan sem var til staðar í dag gefur okkur gott veganesti í leikinn á sunnudaginn, en rúmenska liðið er skipað stórum, sterkum og fljótum leikmönnum með fáa veikleika. Þetta lið er búið að vera á topp fjögur á síðustu stórmótum ef ég man rétt og það er því ljóst að þetta verður mjög erfitt," sagði Rakel Dögg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×