Handbolti

Aron: Úrslitakeppnin er markaðsvæn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka.
Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka. Mynd/Anton

Aron Kristjánsson, þjálfari Íslandsmeistari Hauka, var ánægður með að úrslitakeppnin verði tekin upp á nýjan leik á Íslandsmóti karla og kvenna í handbolta.

Tillaga þess efnis var samþykkt á ársþingi HSÍ í dag. Fjögur efstu liðin í N1-deildum karla og kvenna taka þátt í úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitilinn en ekki átta eins og var síðast þegar úrslitakeppnin var við lýði í handboltanum.

Þá er einnig sú nýbreytni að tvö neðstu liðin falla ekki beint í 1. deildina eins og er nú. Neðsta liðið fellur sem fyrr og efsta liðið í 1. deildinni tekur sæti þess í staðinn. Næstneðsta liðið tekur hins vegar þátt í umspilskeppni með liðunum sem urðu í 2., 3. og 4. sæti í 1. deildinni um eitt laust sæti í úrvalsdeildinni.

„Úrslitakeppnin er mjög markaðsvæn og þess vegna er þetta af hinu góða," sagði Aron í samtali við Vísi á ársþingi HSÍ í dag. „Mér finnst að það sé hægt að gera handboltanum hærra undir höfði ef það er spenna í deildinni allt tímabilið sem nær svo hámarki í úrslitakeppninni."

Hann vill ekki segja að það hafi verið mistök að leggja niður úrslitakeppnina á sínum tíma enda var hann þá staddur í Danmörku. „En ég tel engu að síður að það hefði verið réttara að fækka liðunum sem komast í úrslitakeppnina úr átta í fjögur í stað þess að leggja hana niður."

„Það er ljóst að átta liða úrslitakeppni dregur mjög úr vægi deildarkeppninnar en að sama leyti eykur fjögurra liða úrslitakeppni vægi deildarinnar," sagði Aron. „Það má búast við mjög spennandi lokaumferðum í deildinni, bæði í topp- og botnbaráttunni á næstu keppnistímabilum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×