Viðskipti erlent

Iceland vill fleiri Woolworths verslanir

Engan bilbug er að finna á forsvarsmönnum verslunarkeðjunnar Iceland í Bretlandi þrátt fyrir efnahagserfiðleika. Baugur átti stóran hlut í keðjunni sem nú hefur færst á forræði Landsbankans og Glitnis en stofnandi Iceland, Malcolm Walker, segist áforma að opna enn fleiri verslanir.

Á dögunum var tilkynnt um að Iceland hefði keypt 51 búð sem áður var undir merkjum Woolworths, sem hefur riðað til falls, víðs vegar um Bretland og blaðið The Daily Express hefur eftir Walker í gær að til standi að gera meira af því.

„Það eru um 500 tómar Woolworths búðir," segir Walker, „staðsetning hluta þeirra gæti hentað okkur og við erum í viðræðum við eigendur fasteignana og ég er viss um að við eigum eftir að opna fleiri Iceland búðir síðar á árinu." Iceland eru nú með 700 verslanir í Bretlandi og þeir hafa einnig verið að kaupa nokkrar verslanir sem áður hýstu Marks & Spencer Simply Food verslanir.

Walker neitar einnig þeim sögusögnum að skiptaráðendur í Baugi séu að reyna að selja 13 prósenta hlut félagsins í Iceland. Walker og aðrir hluthafar í Iceland eiga forkaupsrétt í bréfum Baugs og segir hann að ekki hafi verið haft samband við þá.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×