Viðskipti erlent

Actavis enn með í kaupum á Ratiopharm, verðið hækkar

Actavis er enn með í hópi áhugasamra kaupenda að þýska samheitalyfjafyrirtækinu Ratiopharm en um 12 lyfjafyrirtæki og fjárfestingarsjóðir lögðu fram óformleg tilboð í Ratiopharm fyrir helgina að því er segir í frétt á Reuters. Þar kemur einnig fram að verðið fyrir Ratiopharm hafi hækkað í þessum tilboðum.

 

Stjórn Ratiopharm vinnur nú að því að fækka í þessum hópi áhugasamra kaupenda og velja úr þau fyrirtæki/fjárfesta sem fá að gera bindandi tilboð í fyrirtækið.

 

Auk Actavis eru í hópnum lyfjafyrirtækin Pfizer, Sanoft-Aventis, Teva, Mylan, Watson Pharmaceuticals og kínverskt lyfjafyrirtæki. Í hópi fjárfestingarsjóða eru TPG, Permira, KKR, EQT og Advent í samvinnu við Goldman Sachs.

 

Í síðustu viku tilkynnti VEM, móðurfélag Ratiopharm, um að bankarnir Commerzbank og BNP Paribas myndu standa að lánum til fjárfestingar sjóðanna í Ratiopharm og segir Reuters að það hafi leitt til þess að verðið á fyrirtækinu hefur farið hækkandi.

 

VEM, sem er í eigu Merckle fjölskyldunnar, vonast til að fá um 3 milljarða evra fyrir Ratiopharm en fyrstu tilboðin frá fyrrgreindum lyfjafyrirtækjum og fjárfestingarsjóðum lágu á bilinu 2 til 2,5 milljarðar evra.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×