Viðskipti erlent

FIH bankinn fær danska ríkisábyrgð að 1.200 milljörðum

FIH bankinn í Danmörku, sem nú er í eigu íslenska ríkisins, hefur fengið ríkisábyrgð frá danska ríkinu. Danska fjármálaeftirlitið tilkynnti þetta í dag en um er að ræða rammasamning upp á allt að 50 milljarða danskra kr. eða um 1.200 milljarða kr.

Samningur þessi er viðauki við svokallaðan Bankpakke I sem er aðstoð danskra stjórnvalda við þarlenda banka í fjármálakreppunni.

„Ábyrgðin þýðir að FIH Erhvervsbank getur á næstu árum veitt lán og gefið út skuldabréf með ríkisábyrgð með allt að þriggja ára líftíma," segir í tilkynningu frá FIH um málið. „Þessi lán og bréf verða með sama lánshæfismat og er á danska ríkinu."

Þetta þýðir að lánshæfismatið verður Aaa og AAA á þessum lánum og bréfum FIH. Það er matið hjá bæði Moody´s og Standard & Poors.

FIH reiknar með að veita fyrstu lánin frá og með þriðja ársfjórðungi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×